Össur: ESB hefði komið í veg fyrir efnahagshrun

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, sem er nú í opinberri heimsókn í Króatíu, segir að ef Ísland væri hluti af Evrópusambandinu og evrusvæðinu þá hefði ekkert efnahagshrun orðið á landinu fyrir tveimur árum.

„Það er ljóst að fjárhagslegar afleiðingar kreppunnar hefðu orðið mun [...] mildari fyrir Ísland,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Össuri, sem ræddi við blaðamenn í Zagreb í dag.

Þar sat Össur fund með Gordan Jandrokovic, utanríkisráðherra Króatíu.

„Ef Ísland ætlar að standa jafnfætis nágrannalöndum sínum í Norður-Evrópu [...] þá verður það að ganga í ESB, sagði hann.

Hann mun svo eiga fund með forseta landsins, dr. Ivo Josipovic, svo og öðrum ráðherrum í dag. Össur verður einnig viðstaddur undirritun samstarfssamnings milli verkfræðistofunnar Eflu og Energy Institute Hrovje Pozar um jarðhitaverkefni í Króatíu.

Á miðvikudag heldur utanríkisráðherra til Ungverjalands, þar sem hann á fundi með János Martonyi, utanríkisráðherra landsins og Pal Schmitt, forseta þingsins og nýkjörnum forseta. Ennfremur mun Össur halda til borgarinnar Szentlorinc til að kynna sér jarðhitaverkefni sem íslenska verkfræðistofan Mannvit vinnur að.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka