Bandarískur hermaður, sem er kærður fyrir að leka myndbandi af árás á óbreytta borgara í Bagdad, hlóð niður meira en 150.000 leyniskeytum starfsmanna bandarískru utanríkisþjónustunnar. Þar á meðal voru skeyti frá bandaríska sendiráðinu í Reykjavík um íslensk málefni og nafngreinda einstaklinga.
Dagblaðið New York Times greinir í dag frá ákærunum á hendur hermanninum, sem heitir Bradley E. Manning og er 22 ára. Auk þess að sæta ákæru fyrir að leka myndbandinu sem sýnir mannskæða árás Bandaríkjahers á óbreytta borgara í Bagdad, og mbl.is greindi frá í dag, er hann kærður fyrir að hlaða niður í óleyfi meira en 150.000 háleynilegum skeytum utanríkisþjónustunnar.
Verði skeytin sem hermaðurinn hlóð niður birt opinberlega þá gætu þau flett hulunni af innviðum starfs sendiráða Bandaríkjanna um allan heim, að því er talsmaður hersins sagði í dag.
Í ákærunni kemur m.a. fram að hermaðurinn hafi sýnt að minnsta kosti 50 skeyti „persónu sem átti engan rétt á að sjá þau“. Í kærunni er einungis eitt skeyti nefnt með nafni en það kallast „Reykyavik 13“.
Svo virðist sem um sé að ræða skeyti sem birt var opinberlega á vefnum Wikileaks. Skeytið er dagsett 13. janúar sl. og er skrifað af Sam Watson, þá yfirmanni sendiráðs Bandaríkjanna í Reykjavík. Þar rekur hann viðræður sínar við íslenska ráðamenn um þjóðaratkvæðagreiðsluna vegna Icesave.
Wikileaks birti einnig annað skeyti sem sent var frá Íslandi þar sem er að finna palladóma um ýmsa nafngreinda einstaklinga, þeirra á meðal Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Albert Jónsson sendiherra.
Í frétt NYT kemur einnig fram að Manning hafi sagt Adrian Lamo, sem er fyrrverandi tölvuhakkari, frá gjörðum sínum í netspjalli og Lamo látið yfirvöld vita.