Steingrímur með töflufund á Hrafnistu

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Kristinn

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og fyrrum íþróttafréttamaður, verður með töflufund á Hrafnistu í Reykjavík í dag frá kl. 17:30, áður en leikur Hollands og Úrúgvæ hefst í undanúrslitum HM í knattspyrnu.

Í tilkynningu frá Hrafnistu segir, að fyrir leikinn, sem hefst kl. 18:30, verði sýndur á breiðtjaldi. Fyrir leikinn muni Steingrímur spá í spilin og útskýra leikskipulag liðanna, velta fyrir sér helstu styrkleikum þeirra og veikleikum og svara spurningum heimilismanna. Einnig verður spáð í framvinduna og hugsanleg vafaatriði í hálfleik og í leikslok.

Á morgun verður Bjarni Felixson, íþróttafréttamaður, með töflufund á Hrafnistu í Hafnarfirði fyrir undanúrslitaleik Spánar og Þýskalands. Töflufundurinn hefst kl. 17:30 og leikurinn er síðan á dagskrá kl. 18:30.

„Mikill knattspyrnuáhugi er á Hrafnistu og fjöldi heimilisfólks hefur ekki misst af einum einasta leik það sem af er HM. Það er því mikill fengur af heimsókn Bjarna og Steingríms, sem án efa reynir að njóta þess að fá frí í örskamma stund frá öllum excelskjölunum í fjármálaráðuneytinu," segir í tilkynningu frá Hrafnistu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert