„Nú eru þeir farnir að þræta ráðherrarnir og segjast víst hafa verið vel búnir undir dóm Hæstaréttar vegna gengistryggðu bílalánanna. Það er rétt að áður en dómurinn féll, þóttust þeir hafa ráð undir rifi hverju. Vita hvað til bragðs skyldi taka hvernig sem dómsniðurstaðan færi,“ segir Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á heimasíðu sinni í dag. Hann segir að síðan hafi málið einkennst af ráðaleysi í meðförum ríkisstjórnarinnar. „Enda ekki við öðru að búast. Ráðalaus ríkisstjórn getur aldrei einkennst af nokkru öðru en ráðleysi og fumi.“
Einar segir að dómsniðurstaðan sé fengin en hins vegar sé ljóst að enn greini menn á um ýmislegt varðandi málið. Spurt hafi verið margra spurninga í kjölfarið eins og t.d. hvaða lán falli undir dómana, hvort lánaskilmálar hafi verið mismunandi á milli lána, í hvaða tilfellum fólk hafi fengið erlendan gjaldeyri í hendur en ekki íslenskar krónur og hvaða vexti eigi að miða við. Síðast og ekki síst segir Einar að sú spurning hafi vaknað hvað eigi að gera í málum þeirra sem tekið hafi innlend lán.
„Ríkisstjórnin kveðst ekki ætla að svara þessari spurningu. Við sjálfstæðismenn sögðum á okkar landsfundi, að við vildum sátt um gengislán og og verðtryggingu. Setja þyrfti í forgang þau dómsmál sem upp kynnu að koma í kjölfar hæstaréttardóma um gengisbundin lán og láta dómstóla ráða niðurstöðunni. Nú er sem sagt runninn upp biðtími og tími margvíslegra málaferla. Það verða dómstólarnir sem munu svara spurningunum sem kallað er eftir svörum við,“ segir Einar.