„Fullyrðingar Fjarskiptasjóðs, um að hann leggi áherslu á reikiaðgang annarra fjarskiptafyrirtækja að þeim sendum sem um ræðir, eru í fullkomnu ósamræmi við samning þann sem sjóðurinn gerði við Símann,“ segir í athugasemd Vodafone við yfirlýsingu Fjarskiptasjóðs.
Vodafone segir það vera rétt að í upphaflegum útboðsgögnum hafi verið tilgreint að reikiaðgangur skyldi veittur, en í endanlegum samningi hafi hann ekki verið tryggður.
„Þess í stað var Símanum veitt einkaleyfi til að veita þjónustu í gegnum sendana, jafnvel þó að hið opinbera kostaði uppsetningu búnaðarins. Breytingin var gerð að frumkvæði Símans, samkvæmt fundargerð stjórnar Fjarskiptasjóðs frá því í október 2008 (sjá upplýsingar í meðfylgjandi stefnu).
Grundvallarmunur er á þessum samningi Fjarskiptasjóðs og þeim sem sjóðurinn hefur gert áður - til dæmis við Símann og Vodafone vegna uppbyggingar á farsímaþjónustu á fámennum svæðum. Í þeim samningum var reikiaðgangur annarra fjarskiptafélaga ávallt tryggður og fyllsta jafnræðis gætt. Það var ekki gert nú og því njóta íbúar þeirra svæða sem um ræðir ekki þess ávinnings sem frjáls samkeppni hefur í för með sér. Vodafone telur að breytingin á samningnum feli í sér ólöglegan ríkisstyrk til Símans.
Fullyrðingar Fjarskiptasjóðs, um að sérfræðingar Fjármálaráðuneytisins hafi úrskurðað að útboðið fæli ekki í sér ólögmætan ríkisstyrk, eru ekki í samræmi við þau gögn sem liggja fyrir. Sé slíkt álit fyrir hendi á Fjarskiptasjóður að gera það opinbert hið fyrsta. Gagnsæi er grunnkrafa í umfangsmiklum viðskiptum opinberra aðila við einkafyrirtæki. Skylt er auk þess að tilkynna öll slík vafamál til Eftirlitsstofnunar EFTA. Stofnunin er sú eina sem sker úr um lögmæti ríkisstyrkja.
Vodafone tekur undir að útboðið sjálft hafi ekki brotið í bága við ríkisstyrkjareglur. Samningurinn við Símann var hins vegar mjög frábrugðinn útboðsgögnunum og Vodafone telur hann augljóslega fela í sér ríkisstyrk, vegna einkaleyfisins sem samningurinn tryggir Símanum. Ríkið fjármagnar því í raun uppbyggingu á einokunarstöðu eins fjarskiptafyrirtækis á ákveðnum svæðum. Á því tapa skattgreiðendur og neytendur.