Vonar að framkvæmdir tefjist ekki lengi

Kristján Möller samgönguráðherra.
Kristján Möller samgönguráðherra. mbl.is/Kristinn

Kristján L. Möller, samgönguráðherra, segist vona, að niðurstaða kærunefndar útboðsmála um að fella úr gildi samninga Vegagerðar við verktaka um breikkun Suðurlandsvegar, verði ekki til þess að tefja framkvæmdir mikið.

Vegagerðin ákvað að ganga til samninga við Vélaleigu AÞ ehf. um tvöföldun Suðurlandsvegar frá  Lögbergsbrekku að Litlu kaffistofunni en kærunefnd útboðsmála felldi ákvörðun Vegagerðarinnar úr gildi á þeirri forsendu að Vélaleiga AÞ uppfyllti ekki sett skilyrði. Í útboðinu var miðað við að verkinu yrði lokið í september 2011.

Kristján sagði að þetta þýddi ekki að endurtaka þurfi útboðið heldur muni Vegagerðin væntanlega semja við annan verktaka. Kristján sagðist vona, að hægt yrði að bjóða út breikkun á öðrum vegarköflum síðar á þessu ári. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert