Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað íslenska ríkið af kröfu konu, sem fékk greiddar bætur úr sjúkdómatryggingu og taldi fram sem skattfrjálsar tekjur en skattstjóri taldi að skattleggja ætti tekjurnar. Héraðsdómur segir að undantekningarákvæði í skattalögum eigi ekki við um þessar bætur.
Konan keypti sjúkdómatryggingu hjá bresku tryggingafélagið árið 2000 og árið 2007 fékk hún greiddar bætur úr tryggingunni vegna sjúkdóms, rúmar 5 milljónir króna samkvæmt þáverandi gengi breska pundsins. Konan taldi féð fram sem skattfrjálsar tekjur.
Skattstjóri taldi hins vegar að skattleggja ætti bæturnar og var konunni gert að greiða nærri 1,8 milljónir króna í skatta. Yfirskattanefnd staðfesti þennan úrskurð og höfðaði konan því mál á þeirri forsendu, að úrskurður skattstjóra væri ólögmætur og um hefði verið að ræða eingreiðslu á vátryggingabótum, sem ekki yrðu taldar til tekna.
Héraðsdómur segir hins vegar í niðurstöðu sinni, að greiðsla á vátryggingabótum úr sjúkdómatryggingu falli undir skattskyldar tekjur samkvæmt lögum um tekjuskatt. Þá fellst dómurinn ekki á, að að sjúkdómatrygging falli undir hugtakið „líftryggingu“ og því eigi ekki við undantekningarákvæði í skattalögum.