„Þetta er tilbúningur“

Ari Edwald.
Ari Edwald. mbl.is/Ómar

Ari Edwald, forstjóri 365, vísar því alfarið á bug að Jón Ásgeir Jóhannesson hafi í tölvupósti krafist þess að Óskar Hrafn Þorvaldsson yrði látinn hætta sem fréttastjóri Stöðvar 2 vegna frétta sem stöðin birti um viðskipti Jóns Ásgeirs.

Vefsíðan Hvítbók birti á mánudag  skjal, sem virðist vera tölvupóstsamskipti milli Jóns Ásgeirs og Ara í lok apríl. Ari segir að um tilbúning sé að ræða.

„Þessi tölvupóstsamskipti hafa ekki farið fram á milli okkar. Þetta er tilbúningur.“ segir Ari í samtali við mbl.is.

Óskar Hrafn tilkynnti um uppsögn sína sem fréttastjóri 11. maí sl. vegna fréttar sem fréttastofan varð að draga til baka um meinta fjármagnsflutninga íslenskra kaupsýslumanna í skattaskjól erlendis.

Bætt við kl. 17:30: Hvítbók.vg hefur dregið fréttina til baka tímabundið á meðan frekari sannana fyrir fréttinni er leitað. Sveinbjörn Ragnar Árnason, einn af forsvarsmönnum  Hvítbókar, segir að ekki hafi verið ætlunin að setja út rangar upplýsingar, en að nánar athuguðu máli hafi verið rétt að taka fréttina út, a.m.k. tímabundið. Aðspurður kvaðst hann ekki getað svarað því hvort vefsíðunni bárust upplýsingarnar sem framsendir tölvupóstar, eða hvort þær voru í ritvinnsluskjali eða annars konar skjali.

Ekki er því hægt að sjá fréttina ef farið er inn á aðalsíðu Hvítbókarinnar, en forsvarsmenn hennar hafa sett yfirlýsingu inn á fréttina, þar sem tengt er á hana frá mbl.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert