Verði miðað við samningsvexti gengistryggðra lána munu um 350 milljarðar króna færast frá fjármálafyrirtækjum yfir til lántakenda, samkvæmt útreikningum, sem gerðir hafa verið fyrir ráðuneyti og sagt er frá í Viðskiptablaðinu í dag. Að minnsta kosti 100 milljarðar króna munu lenda á ríkissjóði, og þar með skattgreiðendum, ef sú eignartilfærsla á sér stað.
Verði farið að tilmælum Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins um að miða við lægstu vexti Seðlabankans við uppgjör lána, sem áður voru gengistryggð, verður eignartilfærslan um 140 milljarðar króna. Þá mun ríkissjóður að öllum líkindum ekki tapa neinu fé, að sögn Viðskiptablaðsins, þar sem fjármálafyrirtæki sem ríkið á hlut í geta þolað það högg.
Blaðið segir, að í vinnugögnunum komi fram að stjórnvöld telji sig þurfa að hækka tekjuskatt, virðisaukaskatt og skera enn frekar niður, verði þessi eignayfirfærsla að veruleika. Þar segi einnig að kostnaður við alla almenna fjármálaþjónustu myndi líklega stórhækka ef samningsvextir lánanna yrðu látnir standa.