Þó ekki hafi verið um hreinan atgervisflótta að ræða frá Landspítalanum síðustu misseri, líkt og kom fram í máli Björns Zoëga forstjóra spítalans í gær, segir það ekki nema hálfa söguna að mati Birnu Jónsdóttur, formanns Læknafélags Íslands.
Minni ásókn í auglýstar stöður og tregða lækna til að flytja heim hafi ekki síður mikil áhrif. „Við [hjá Læknafélaginu] erum búin að vera að hamra á því að fólk er ekki að koma heim,“ segir Birna.
Tugir lækna hafi undanfarna mánuði hætt á spítalanum vegna aldurs, frekara náms og breytinga inni á stofnuninni, að því er fram kemur í umfjöllun um málið í Morgunblaðinu í dag.