Hagsmunasamtök heimilanna fagna þessari ákvörðun Samtaka fjármálafyrirtækja, að mælast til þess við aðildarfélög sín, að þeir sem skulda gengistryggð fasteignalán fái að greiða 5 þúsund krónur af hverri milljón upphaflegs höfuðstóls þar til skorið verður úr um hvernig farið verður með þessi lán.
Segjast hagsmunasamtökin telja þessa ákvörðun vera heillaskref í átt að sátt í þjóðfélaginu eftir að Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlit stigu fram í síðustu viku með vanhugsuðum hætti.
Samtökin segja ánægjulegt hve stóru bankarnir þrír og sparisjóðirnir brugðust skjótt við og urðu við þessum tilmælum. „Ekkert hefur heyrst frá slitastjórnum eða skilanefndum SPRON og Frjálsa fjárfestingarbankans. (...) HH skora á öll fjármálafyrirtæki að ganga að tilmælum SFF og hafa þetta úrræði lántökum að kostnaðarlausu og með minnstri fyrirhöfn," segir m.a. í tilkynningunni.