Lúðvík Geirsson hefur ákveðið að láta af störfum sem bæjarstjóri í Hafnarfirði og tekur Guðmundur Rúnar Árnason, oddviti Samfylkingarinnar, við því starfi. Lúðvík segist taka þessa ákvörðun til að tryggja að bæjarstjórn fái nauðsynlegan starfsfrið.
„Í ljósi þeirra eftirmála nýliðinna kosninga og ákvarðana um skipan í embætti bæjarstjóra er einboðið að ekki mun ríkja sú almenna sátt sem er að mínu mati nauðsynleg til að viðhalda áfram víðtækri samvinnu og samráði í bæjarfélaginu.
Til að tryggja að bæjarstjórn fái þann starfsfrið sem nauðsynlegur er til að takast á við þau mikilvægu verkefni sem m.a. hafa verið kynnt í ítarlegri stefnuyfirlýsingu nýs meirihluta, hef ég óskað eftir því við bæjarfulltrúa sitjandi meirihluta að ljúka mínum störfum sem bæjarstjóri og ganga ekki frá ráðningasamningi til næstu tveggja ára eins og bæjarstjórn hafði samþykkt fyrir sitt leyti á fundi sínum þann 14. júní. Mun ég því láta af störfum bæjarstjóra Hafnarfjaðar frá og með deginum í dag," segir í yfirlýsingu, sem Lúðvík hefur sent frá sér.
Lúðvík hefur verið bæjarstjóri í Hafnarfirði undanfarin átta ár. Hann var í 6. sæti á framboðslista Samfylkingarinnar fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í maí en náði ekki kjöri og Samfylkingin missti hreinan meirihluta í bæjarstjórninni. Samfylkingin og Vinstrihreyfingin-grænt framboð sömdu um meirihlutasamstarf og var Lúðvík ráðinn bæjarstjóri en samið var um að Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, oddviti VG, tæki við eftir tvö ár.
Guðmundur Rúnar Árnason er 52 ára að aldri. Hann hefur setið í bæjarstjórn Hafnarfjarðar frá árinu 2002 og var varabæjarfulltrúi næsta kjörtímabil á undan. Á þessum tíma hefur hann m.a. átt sæti í bæjarráði og verið þar formaður. Hann hefur jafnframt verið formaður fjölskylduráðs og forseti bæjarstjórnar.
Guðmundur Rúnar er kvæntur Ingibjörgu Jónsdóttur, félagsfræðingi og á fjögur börn á aldrinum 9-32 ára. Hann er stjórnmálafræðingur að mennt og lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá London School of Economics árið 1991.