Reynt að ná langtímasamningi

Vilhjálmur Egilsson.
Vilhjálmur Egilsson. mbl.is/Árni Sæberg

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir á vef samtakanna að reyna þurfi að ná langtímakjarasamningi, t.d. til þriggja ára, með hóflegum launahækkunum sem ekki séu úr takti við það sem gerist í nágrannalöndunum. Undirbúningur er hafinn fyrir gerð kjarasamninga í haust.

„Skynsamlegast er að líta á allan samningstímann í einu og spyrja sig hvaða hækkanir eigum við að semja um yfir þriggja ára tímabil. Ennfremur þarf að vera ákveðinn sveigjanleiki til staðar þannig að hægt sé að fara hraðar eða hægar í hækkanir eftir aðstæðum en engu að síður verði allir hópar í svipaðri stöðu í lok þriggja ára samningstíma," segir Vilhjálmur.

Hann bætir við, að með nálgun af þessum toga sé unnt að hugsa sér lausn sem gæti gengið bæði fyrir almenna vinnumarkaðinn jafnt sem hinn opinbera. Tillögur um frystingu launa opinberra starfsmanna séu skiljanlegar við núverandi aðstæður en hins vegar megi heldur ekki safna upp vanda sem magnist upp og skapi erfiðari stöðu á vinnumarkaðnum þegar frá líður.

„Meginspurningin þarf að vera: Hvað þarf að gerast þannig að leið af þessum toga verði ásættanleg fyrir allan vinnumarkaðinn? SA hafa einmitt verið að fjalla um þau mál og flest þeirra hafa verið til umfjöllunar í samfélaginu á undanförnum mánuðum og misserum. Stöðugleikasáttmálinn sem gerður var fyrir rúmu ári átti að varða leiðina en örlög hans urðu því miður önnur en vænst var," segir Vilhjálmur.

Fréttabréf Samtaka atvinnulífsins 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert