Samstarf við HÍ um lög- og viðskiptafræði

Háskólinn á Akureyri.
Háskólinn á Akureyri.

Háskólinn á Akureyri stendur frammi fyrir 8% niðurskurði á rekstrarfé skólans fyrir árið 2011. Það samvarar um 105 milljónum króna. Sá niðurskurður kemur til viðbótar 6,6% niðurskurði árið 2010.

Stefán B. Sigurðsson, rektor Háskólans á Akureyri, segir stjórnendur skólans hafa unnið hörðum höndum að því finna leiðir til að mæta þessum fyrirséða niðurskurði án þess að trufla starfsemi skólans verulega. „Þetta er auðvitað mikill niðurskurður og er sársaukafullt en við reynum að gera allt sem við getum til að halda starfseminni uppi með fullri reisn og teljum okkur geta gert það með þessum aðgerðum sem við ætlum að grípa til núna.“

Í tölvupósti til starfsmanna í dag kynnti Stefán tillögur í 15 liðum sem háskólaráð hefur samþykkt til að mæta sparnaðinum. Aðalatriðin eru þau að fylgja stefnu stjórnvalda fyrir opinbera háskóla og leitast við að auka samstarf til að ná fram hagræðingu í rekstri.

Meðal annars stendur til að hefja samstarf við Háskóla Íslands um kennslu í lögfræði og viðskiptafræði til að lækka rekstrarkostnað kennslunnar. Stefán segir að viðræður séu hafnar við HÍ um viðskiptafræðina og lögfræðin muni vafalaust fylgja í kjölfarið.

Ætlunin er meðal annars að HA sjái alfarið um fjarkennslu í viðskiptafræði. 

Aðrar samþykktar tillögur voru til að mynda að taka ekki inn nýnema í umhverfis- og orkufræði næsta haust og innrita ekki í meistaranám í heimskautarétti.

„Við ætlum að skoða þetta fram og til baka og finna góðan samstarfsflöt,“  segir Stefán.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert