Hætt var við nauðungaruppboð á fasteign í Reykjavík í morgun vegna réttaróvissu sem skapast hefur í kjölfar dóma Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggingar.
Þegar fulltrúar sýslumanns mættu til uppboðsins krafðist eigandi fasteignarinnar, sem er í vanskilum með gengistryggt lán, að hætt yrði við uppboðið enda væri það ólögmætt. Eftir að hafa rætt málið um stund í einrúmi inni í bifreið ákváðu fulltrúar sýslumanns að hætta við uppboðið.
Að sögn Þuríðar Árnadóttur, setts sýslumanns í Reykjavík, er þetta í fyrsta skipti sem uppboði er mótmælt á þessum forsendum. „Uppboðið var stöðvað vegna óvissu um hver vanskilin á láninu voru í raun í kjölfar dómsins."