Ókeypis súpa og brauð á mánudögum

Starfsmenn veitingahússins Nítjándu hafa ákveðið að bjóða upp á súpu, brauð og drykkjarföng alla mánudaga í júlí á milli klukkan 17-19. Er þetta gert vegna þess að hjálparsamtök hafa ákveðið að hafa ekki opið í júlí vegna sumarleyfa.

Í tilkynningu segir Þórey Ólafsdóttir, markaðsstjóri fyrirtækisins, að þar á bæ hafi fólk heyrt af sumarlokunum hjá Fjölskylduhjálp Íslands. Þá hafi kviknað sú hugmynd að leggja eitthvað að mörkum til þess að létta undir með þeim einstaklingum og fjölskyldum sem  þurfa á aðstoð að halda.

Starfsfólkið leitaði til Vífilfells sem og annarra birgja sem samþykktu að taka þátt í þessu verkefni.

Fyrsta súpukvöld Nítjándu verður næstkomandi mánudaginn þann 12. júlí auk mánudaganna 19. og 26. júlí. Ekki verður tekið við neinum pöntunum heldur eingöngu á móti gestum á meðan húsrúm leyfir en opið verður á milli 17-19.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka