Nauðsynlegt að setja lög um hópmálsókn

Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda.
Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda. mbl.is/Eggert

Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, segir að umfangsmikið ólögmætt samráð tveggja farsímasala, Tæknivara og Hátækni, undirstriki nauðsyn þess að sett verði lög um hópmálsókn til að tryggja rétt neytenda.

Fyrirtækið Skipti og dótturfélag þess, Tæknivörur, hafa viðurkennt fyrir Samkeppniseftirlitinu, að Tæknivörur hafi brotið samkeppnislög með umfangsmiklu ólögmætu samráði við Hátækni. Féllust Tæknivörur á að greiða 400 milljónir króna í stjórnvaldssekt. Hátækni hefur m.a. umboð fyrir Nokia síma og Tæknivörur m.a. umboð fyrir Sony Ericsson síma.

Að mati Gísla er þetta óvenjulega há sekt. Samkeppniseftirlitið hljóti því að telja að brotið sé mjög alvarlegt.

Gísli segir, að það sé ekki raunhæft, vilji neytendur leita réttar síns vegna mála af þessu tagi, að hver og einn þeirra höfði mál gegn þeim fyrirtækjum, sem þeir telja að hafi hlunnfarið sig vegna ólöglegs verðsamráðs. „Það er ekki raunhæft að sækja neinar bætur eða láta reyna á bætur nema lög um hópmálsókn verði samþykkt,“ segir Gísli.

Hann bendir á tvívegis sé búið að leggja fram frumvarp um hópmálsókn á Alþingi, sem geri mönnum kleift að höfða sameiginlega mál til kröfu um bætur fyrir einsleitar kröfur, í stað þess að hver og einn fari í mál. Það hafi hins vegar ekki verið samþykkt ennþá.

Gísli telur mikilvægt að menn bíði ekki boðanna lengur og samþykki slík lög. Hann bendir jafnframt á að hann hafi haldið því fram opinberlega að lög um hópmálsókn geti verið afturvirk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert