Útsendingar frá heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu halda áfram að njóta langmestra vinsælda af því efni sem boðið er upp á í sjónvarpi þessar vikurnar.
Capacent mælir sjónvarpsnotkun Íslendinga og er það gert rafrænt. Valdir einstaklingar bera á sér sérstök tæki, sem mæla nákvæmlega hvaða sjónvarpsefni viðkomandi einstaklingur horfir á.
Capacent hefur nú birt niðurstöður áhorfsmælinga fyrir vikuna 28. júní til 4. júlí. Samkvæmt þeim eru þrír knattspyrnuleikir í efstu sætunum hjá Ríkissjónvarpinu, sem sýnir leikina. Flestir horfðu á leik Spánar og Portúgals, en 55,2% landsmanna horfðu á þann leik í fimm mínútur eða lengur. Næstflestir horfðu á leik Spánar og Paragvæs (51,2%) og í þriðja sæti var leikur Argentínu og Þýskalands (47,7%). Í vikunni á undan voru leikir með Argentínu í tveimur efstu sætunum og því virðast Spánverjar hafa tekið við af Argentínu sem vinsælasta lið keppninnar.
HM-kvöldin í umsjón Þorsteins J. njóta einnig mikillar hylli meðal áhorfenda RÚV. Þrjú HM-kvöld komast á lista yfir 10 vinsælustu dagskrárliðina. Í sæti 9 kemur svo Popppunktur og það er við hæfi að tíufréttir séu í 10. sætinu. Sjálfur aðalfréttatíminn nær ekki á listann enda eru fréttirnar á öðrum tíma en venjulega, eða klukkan 18.
Þegar heildaráhorf er skoðað eru yfirburðir RÚV miklir. Hlutdeild RÚV í heildaráhorfi er 59,1%, hlutdeild Stöðvar 2 20,8% og hlutdeild Skjás eins 7,5%.
Vinsælasta efni Stöðvar 2 voru fréttirnar með 18,6% uppsafnað áhorf en Helgarsportið kom næst með með 17,% áhorf. Hjá Skjá einum var þátturinn Law&Order með mest uppsafnað áhorf eða 9,6%.
Í þessum tölum er miðað við aldurshópinn 12-80 ára.