Greiddi þrotabúinu 15 milljónir dollara

Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson. mbl.is/Ómar

Jón Ásgeir Jóhannesson hefur samkvæmt heimildum Morgunblaðsins greitt þrotabúi Glitnis 15 milljónir dollara, jafnvirði 1,9 milljarða króna.

Samkvæmt sömu heimildum verður listi yfir eignir Jóns Ásgeirs gerður opinber.

Í gær hafnaði breskur dómstóll kröfu Jóns Ásgeirs um að kyrrsetningu á öllum eignum hans víða um heim yrði hnekkt. Formaður slitastjórnar Glitnis sagðist í vitnisburði sínum telja að Jón Ásgeir væri enn auðugur maður, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Fram kom í vitnisburði Steinunnar Guðbjartsdóttur, formanns slitastjórnar Glitnis, fyrir dómstólum vegna lögsóknar slitastjórninnar gegn Jóni Ásgeiri og fleiri fyrri eigendum eða stjórnendum Glitnis, að Jón Ásgeir sendi Lárusi Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis, tölvupóst fáum dögum fyrir hrun bankans þar sem hann gerði grein fyrir innistæðum á reikningum í breskum bönkum upp á 40 milljarða króna. 

Steinunn lagði fram tölvupósta sem rannsakendur Kroll höfðu grafið upp í þrotabúi Glitnis. Var þar um að ræða myndaskjal sem sýndi innistæður í fimm breskum bönkum fyrir samtals 202 milljónir punda. Yfirskrift tölvupóstsins var „For your eyes only“ eða: „Aðeins fyrir þig.“

Steinunn tók fram í vitnisburði sínum að hún gæti ekki sýnt fram á hvort reikningarnir tilheyrðu Jóni Ásgeiri sjálfum eða félögum í hans eigu. Hún sagðist hins vegar hafa fulla ástæðu til að trúa því að Jón Ásgeir væri ennþá auðugur og að hann hefði yfir miklu reiðufé að ráða. Steinunn benti einnig á að eigur Jóns Ásgeirs hefðu á tímabili numið um 600 milljónum punda, en samkvæmt eignayfirliti sem hann skilaði breskum dómstólum væru eignir hans aðeins um ein milljón punda eða tæpar 190 milljónir króna miðað við núverandi gengi krónunnar.

Haft var eftir Jóni Ásgeiri í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi, að umræddir reikningar hefðu tilheyrt bresku verslunarkeðjunni Iceland þar sem Jón Ásgeir sat í stjórn þar til á þessu ári.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka