Kallar á lagabreytingar

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna og fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna og fjármálaráðherra. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

hjalti Geir Erlendsson

hjaltigeir@mbl.is

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að stjórnvöld muni fara vel yfir nýfallinn dóm héraðsdóms um skattlagningu sjúkdómatryggingar.

„Það er bæði eðlilegt og sjálfsagt að skoða málið, sérstaklega ef dómurinn gengur í aðra átt en framkvæmdin hefur verið,“ segir Steingrímur. Væntanlega þurfi lagabreytingu til og af þeim sökum verði ekki teknar neinar skyndiákvarðanir. Hann segir afar mikilvægt að fá málið á hreint.

Steingrímur vildi þó sem minnst um málið segja fyrr en hann hafi náð að kynna sér það betur.

Héraðsdómur staðfesti í vikunni úrskurð yfirskattanefndar þess efnis að bætur úr sjúkdómatryggingu skuli skattlagðar sem tekjur. Gengur dómurinn þvert á framkvæmd undanfarinna ára. Bæði tryggingafélögin sem og hagsmunasamtök sjúklinga telja vátryggingabætur sjúkdómatrygginga falla undir undanþáguákvæði um tekjuskatt og séu því ekki skattskyldar.

Örn Gústafsson, forstjóri líftryggingafélagsins Okkar lífs, segir fólk gapandi hissa vegna málsins. Hann segir málið stóralvarlegt gagnvart neytendum. Enn fremur er það hans mat að ef þetta verði niðurstaðan muni sala á sjúkratryggingum leggjast af á Íslandi. Fólk muni leita til erlendra félaga og taka svo bæturnar erlendis án þess að gefa þær upp til skatts.

Örn segir túlkun héraðsdóms vera á þá leið að þar sem sjúkdómatrygging sé ekki nefnd í undanþáguákvæði tekjuskattslaga beri að skattleggja bæturnar. Sú túlkun sé of þröng að hans mati og margra annarra. Hann segir héraðsdóm einblína um of á hinn þrönga lagabókstaf en líti ekki til anda laganna. Skattlagningin sé auk þess þvert á vilja löggjafans.

Örn segir að Okkar líf muni ekki breyta verklagi við útgreiðslu bóta fyrr en niðurstaða Hæstaréttar í málinu liggi fyrir.

Örn vonast til þess að þingmenn sjái að sér og gangi í málið.

„Þingmenn hafa bara dregið lappirnar í málinu þrátt fyrir ábendingar fjölda aðila svo sem tryggingafélaga og hagsmunasamtaka,“ segir Örn. Hann vonast hins vegar eftir því að löggjafinn lagfæri tekjuskattslögin áður en málið fari fyrir Hæstarétt. Þau séu að þessu leyti í engu samræmi við samsvarandi löggjöf í löndunum í kringum okkur.

Hugsanleg lagabreyting

Alþingi getur vel gripið í taumana en slíkt er ekki háð því að Hæstaréttur hafi komist að niðurstðu. Það er til að mynda vel þekkt að Alþingi breyti lögum í kjölfar héraðsdóma eða álita umboðsmanns Alþingis.

„Fordæmi eru fyrir því að farið sé í lagabreytingar þrátt fyrir að Hæstiréttur hafi ekki dæmt í málum,“ segir Steingrímur J. aðspurður um mögulegt inngrip löggjafans. Slíkt sé gert til að tryggja að lögin séu einhlít á þann veg sem menn vilji hafa hlutina.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert