Jón Ásgeir metur eignir sínar á 240 milljónir

Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson.

Jón Ásgeir Jóhannesson metur eignir sínar á um 240 milljónir króna samkvæmt lista, sem lagður var fram í réttarhaldi í Lundúnum á föstudag. Á listanum er fasteignin Hverfisgata 10 þar sem 101 Hótel er til húsa en fram  kemur að Jón Ásgeir segir hana eign Ingibjargar Pálmadóttur, konu sinnar. Fasteignin er metin á 591 milljón króna en í síðustu viku kom fram að hún hefur verið kyrrsett að óska skilanefndar Glitnis.

Samkvæmt listanum, sem mbl.is hefur undir höndum, á Jón Ásgeir 30.750 pund inni á tveimur bankareikningum í Bretlandi eða samtals rúmar 5,8 milljónir króna. Þá  á hann þrjá bíla, Range Rover, sem metinn er á 2,8 milljónir,  Rolls Royce Phantom, sem er skráður á Jón Ásgeir og metinn  á 17 milljónir en hann segi að það hann sé afmælisgjöf til konu sinnar; og Aston Martin, sem er metinn á 7,5 milljónir en er í sölumeðferð.

Þá á Jón Ásgeir hlutabréf í JMS Partners, sem eru metin á 6 milljónir í samræmi við tilboð frá hinum tveimur hluthöfunum, Gunnari Sigurðssyni, fyrrum forstjóra Baugs í Bretlandi, og   Don McCarthy, stjórnarformanni House of Fraser. Fram kemur að hluturinn verði seldur en þangað til sé Jón Ásgeir launaður stjórnarmaður. 

Á Íslandi eru eignir Jóns Ásgeir eftirtaldar:

Laufásvegur 69, metinn á 113,5 milljónir króna
Hverfisgata 10, metin á 591 milljón
Jörð í Skagafirði, metin á 13,8 milljónir
Vatnsstígur, metinn á 34,4 milljónir
Mjóanes, Þingvöllum, metið á 7,5 milljónir
Skáli á Langjökli, metinn á 2 milljónir. 

Þá eru skráð hlutabréf í félögunum Thu Blasol, Gaumi ehf. og 101 Chalet. Öll þessi hlutabréf eru talin verðlaus. 

Þá á Jón Ásgeir 2,2 milljónir á reikningi hjá Glitni, 500 þúsund í Byr og 100 þúsund í Arion banka.

Á Íslandi á Jón Ásgeir þrjá bíla, tvo af gerðinni Range Rover sem samtals eru metnir á 7,4 milljónir, og Bentley, sem er metinn á 13,2 milljónir. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka