Leiðbeindu ekki eigendum um stofnun félags

Orkuver HS Orku.
Orkuver HS Orku.

Iðnaðarráðuneytið segir, að fulltrúar þess hafi ekki veitt eigendum Magma Energy Sweden leiðbeingar um stofnun félagsins. Hins vegar hafi verið haldinn fundur þar sem regluverk orkumála á Íslandi var útskýrt.

Magma Energy Sweden, sem er dótturfélag kanadíska orkufélagsins Magma Energy, hefur keypt nær allt hlutafé í HS Orku. Meirihluti nefndar um erlenda fjárfestingu hefur komist að þeirri niðurstöðu að þau kaup séu í samræmi við íslensk lög.

Tilkynning iðnaðarráðuneytisins er eftirfarandi:

Vegna frétta um aðkomu iðnaðarráðuneytis að stofnun Magma Energy Sweden vill ráðuneytið koma því á framfæri að fulltrúar þess leiðbeindu ekki eigendum fyrirtækisins um stofnun þess. Hið rétta er að fimmtudaginn 30. apríl 2009 áttu fulltrúar iðnaðarráðuneytis fund með fulltrúum fyrirtækjanna Magma Energy og Geysir Green Energy. Fundurinn var haldinn að beiðni fyrirtækjanna til að upplýsa um lagalegt umhverfi orkumarkaðar á Íslandi. Á fundinum gerðu fulltrúar ráðuneytisins grein fyrir helstu ákvæðum þeirra laga sem varða orkumál og heyra undir iðnaðarráðuneytið, m.a. lög nr. 58/2008 sem takmarka heimildir opinberra aðila til framsals auðlinda og tryggja meirhluta eignarhald opinberra aðila á sérleyfisfyrirtækjum á orkusviði. Þá fóru fulltrúar ráðuneytisins einnig yfir þau ákvæði laga nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, sem lúta að takmörkunum á fjárfestingum erlendra aðila í orkuauðlindum og orkufyrirtækjum, en jafnframt var útskýrt að lögin heyrðu undir viðskiptaráðuneytið og að viðskiptaráðherra hefði árið 2007 skipað nefnd til að endurskoða lagaumhverfi erlendra fjárfestinga á Íslandi og semja frumvarp sem leysti af hólmi gildandi lög. Fulltrúar ráðuneytisins leiðbeindu ekki fyrirtækjunum um stofnun dótturfélags á EES-svæðinu utan Íslands til að eignast HS Orku, enda málið ekki á forræði iðnaðarráðuneytis. Á hverju ári eiga fulltrúar ráðuneytisins fjölda funda með erlendum aðilum til að útskýra regluverk orkumála á Íslandi. Fundurinn með fulltrúum Magma Energy og Geysir Green Energy var í alla staði sambærilegur þessum fundum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert