Lögreglan á Húsavík hafði nóg að gera um helgina en í Mývatnssveit var haldin tónlistarhátíðin Úlfaldi úr Mýflugu. Taldi lögregla að um þúsund manns hefðu sótt hátíðina heim.
Hátíðin fór vel fram en þrjú fíkniefnamál komu upp á föstudagskvöldinu og tveir voru stöðvaðir fyrir akstur undir áhrifum en reyndust þó undir mörkum.
Þá féll einn gestanna 5-6 metra niður í gjótu og ökklabrotnaði.
Í gærkvöldi varð mótorhjólaslys í Mývatnssveit við Bláfjall. Þar var maður á ferð með þremur öðrum á mótorhjóli. Hann datt á hjólinu og var fluttur á sjúkrahúsið á Akureyri með hugsanlegt rifbrot.