Ásgeir Margeirsson, framkvæmdastjóri Magma á Íslandi, segir ekki rétt sem haldið var fram í fréttum Sjónvarps í gærkvöldi að hann hafi sagt að iðnaðarráðuneytið hafi ráðlagt fyrirtækinu að stofna skúffufyrirtæki í Svíþjóð, til að geta eignast HS orku á Íslandi. Hins vegar hafi verið rætt á fundi í iðnaðarráðuneytinu „hvernig lögin virkuðu".
„Magma menn áttu fund með iðnaðarráðuneytinu á síðasta ári," segir Ásgeir um þetta. „Iðnaðarráðuneytið veitti þar ekki leiðbeiningar heldur sagði einfaldlega hvaða lög væru í gildi og svo var rætt um það hvernig lögin virkuðu. Það voru síðan lögfræðingar okkar sem ráðlögðu Magma um það með hvaða hætti hægt væri að stofna félagið."
Þú segir að rætt hafi verið um hvernig lögin virkuðu. Var þá rætt um þennan möguleika?
„Nei, það var bent á að lögin væru þannig að félög á Evrópska efnahagssvæðinu mættu fjárfesta hér. Magma sagðist þá vilja stofna félag á Íslandi til að gera þetta, en þá kom fram að þetta tiltekna félag sem stofnað væri utan um fjárfestinguna mætti ekki vera á Íslandi heldur yrði það að vera annars staðar á EES–svæðinu. Síðan var farið að ráðum okkar lögfræðinga um það hvernig þetta yrði sett upp."
Hann hafnar því að með stofnun „skúffufyrirtækisins" í Svíþjóð hafi verið farið á svig við lög.
„Það er nákvæmlega verið að fylgja lögunum og gera þessa hluti alla í takt við lögin. Enda er nefnd um erlenda fjárfestingu búin að fara í gegn um málið í tvígang þar sem það hefur verið alveg skýrt að þetta er samkvæmt lögum."