Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra spyr hvort ekki væri heiðarlegast að Magma Energy gæti stofnað dótturfélag á Íslandi vegna kaupa fyrirtækisins á HS Orku, því þá kæmu skatttekjur af starfseminni til landsins. Slíkt er ekki hægt skv. lögum.
Hún svarar því ekki hvort henni finnist eðlilegt að hægt sé að stofna skúffufyrirtæki í Svíþjóð til að komast yfir eignarhlutinn – aðalatriðið sé að það sé löglegt.
Ásgeir Margeirsson, framkvæmdastjóri Magma á Íslandi, segir í Morgunblaðinu í dag, að á fundi í ráðuneytinu hafi verið rætt um „hvernig lögin virkuðu“. Bent hafi verið á að félög á EES–svæðinu mættu fjárfesta hér á landi.
Innt eftir því hvort slíkt verði ekki að teljast til nokkuð nákvæmra leiðbeininga segir Katrín: „Þetta stendur í lögunum. Það er ekkert verið að leiðbeina neinum um hvernig eigi að fara á svig við lögin. Svona stendur lagabókstafurinn.“