Haglél gerði í Skötufirði í Ísafjarðardjúpi fyrr í dag þótt nú sé miður júlí og því hásumar. Að sögn Ólafs Kristjánssonar, sem átti leið um fjörðinn, var um stærðarinnar haglél að ræða.
„Þetta var á um 200 metra kafla en ég hafði lent í heljarinnar rigningardembu rétt áður, ég trúði því varla fyrst að um haglél væri að ræða,“ sagði Ólafur við vefinn bb.is.
Hann segir bílinn hafa skautað á veginum vegna hálku eftir að élið skall á. Hálkan varði ekki lengi því skömmu eftir að stytti upp voru öll ummerki eftir élið horfin.