Íhugar að kæra Magma-málið til ESA

Margrét Tryggvadóttir alþingismaður.
Margrét Tryggvadóttir alþingismaður. frikki

„Ég breytti ekkert um skoðun. Mér finnst þetta ennþá vera 2007 hugsunarháttur, þar sem alltaf er reynt að láta lögin gilda fyrir alla hina en ekki mann sjálfan,“ segir Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar.

Rétt í þessu lauk fundi iðnaðarnefndar Alþingis, sem Margrét óskaði eftir, til að ræða um málefni Magma Energy og kaup félagsins á HS Orku í gegnum skúffufélag í Svíþjóð. Margrét segir fundinn hafa verið góðan og upplýsandi, en þó hafi ekki beinlínis fengist botn í málið.

„Það kom fram að ekki hefur verið leitað álits Eftirlitsstofnunar EFTA og það getur í raun hver sem er gert það," segir Margrét. Ákvörðun nefndar um erlenda fjárfestingu er stjórnvaldsákvörðun og er kæranleg til Eftirlitsstofnunarinnar (ESA), sem sker úr um það hvernig framkvæma eigi EES-samninginn

„Mér finnst það mjög áhugaverður kostur og full ástæða til að skoða það," segir Margrét.

Hún er enn á þeirri skoðun að í þessu tilfellu sé fyrirtækið að reyna að finna sér leið undan lögum og reglum með klókindum og stjórnvöld beiti þröngri túlkun laga um leið og þau hunsi anda sömu laga.  ,,Tilgangurinn með lagasetningunni var að takmarka erlenda fjárfestingu í þessum þremur geirum," segir Margrét og vísar í sjávarútveg, orkuframleiðslu og flugrekstur.

Bæði Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra og Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra kváðust á fundinum vilja breyta lögum um erlenda fjárfestingu, að sögn Margrétar. Þá hefur meirihluti nefndar um erlenda fjárfestingu ítrekað hvatt ráðherra til þess að breyta lögunum, en ekkert hefur hreyfst í ráðuneytunum í þá átt. Því er nokkuð ljóst að ekki er sátt í ríkisstjórninni um það hvort og þá hvernig eigi að breyta lögunum um erlenda fjárfestingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert