Íslensk löggjöf var einungis verið skýrð og útlistuð fyrir Magma-mönnum á fundi þann 30. apríl 2009 og hugmyndin um að stofna dótturfyrirtæki í Svíþjóð hafði löngu áður komið fram. Þetta kemur fram í máli Skúla Helgasonar, formanns iðnaðarnefndar.
Fundur um samskipti iðnaðarráðuneytis og Magma Energy var haldin í iðnaðarnefnd í dag.
Að
sögn Skúla var fundurinn miðaður að því að fá allar upplýsingar um málið
upp á yfirborðið. „Það er á ábyrgð viðskiptaráðuneytis að endurskoða
löggjöfina sjálfa en þar sem þetta mál varðar orkugeirann var auðvitað
sjálfsagt að við myndum skoða það og fá allar upplýsingar um það.“
Ásgeir Margeirsson, forstjóri Magma Energy hér á landi, sagði á fundi iðnaðarnefndar Alþingis að orð sín hefðu ekki verið rétt túlkuð varðandi meintar leiðbeiningar iðnaðarráðuneytis um hvernig Magma Energy gæti eignast HS Orku.
Að sögn Skúla má færa rök fyrir því að löggjöfin sé að mörgu leyti úrelt. „Magma Energy vildi til að mynda upphaflega stofna dótturfyrirtæki hér á landi um starfsemina en fengu það ekki. Því þeir þurftu að stofna það í Svíþjóð. Það er auðvitað dálítið furðulegt.“
Skúli segir umræðuna eiga aðallega að snúast um hvort einkaaðilar eigi að geta átt orkufyrirtæki hér á landi. „Frá mínum bæjardyrum snýst þetta bara um að fara í þessa umræðu. Viljum við að einkaaðilar geti átt orkufyrirtæki eða viljum við að þau séu í eigu hins opinbera? Ef okkur finnst að það eigi að vera heimilt tel ég að ekki eigi að gera greinarmun á því hvort eigendur eru Íslendingar eða útlendingar. “