„Ég sé nú ekki hvernig þessi ríkisstjórn ætlar að leggja frekari álögur á heimilin, en þegar hefur verið gert. Þessir skattar sem voru lagðir síðasta haust hafa ekki skilað þeim tekjum sem að var stefnt,“ segir Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, spurð út tillögur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um skattahækkanir.
Sjóðurinn leggur til í skýrslu, sem sjóðurinn hefur gert um íslenska skattkerfið að beiðni fjármálaráðuneytisins, að skattur á fjármagnstekjur einstaklinga og fyrirtækja verði hækkaður úr 18% í 20% sem myndi auka skatttekjur um 0,3% af vergri landsframleiðslu. Einnig að gerðar verði breytingar á virðisaukaskattkerfinu.
Ólöf bendir á að hækkun virðisaukaskatts og eldsneytisskatts, líkt og lagt er til í skýrslunni, sé verðbólguhvetjandi skattlagning.
Ólöf, sem á sæti í fjárlaganefnd Alþingis, segist ekki hafa fengið upplýsingar um það hvernig ríkisstjórnin hyggist leggja upp gerð fjárlagafrumvarpsins fyrir næsta ár. „Þessar fréttir virðast nú benda til þess að hún ætli þá að fara aftur í skattahækkanir til þess að mæta tekjufalli ríkissjóðs. Við þurfum auðvitað að fá nánari skýringar á þessu,“ segir Ólöf í samtali við mbl.is.
Aðspurð segir hún að það komi ekki á óvart að ríkisstjórnin sé að íhuga skattahækkanir. Það sé hins vegar óþarfi fyrir hana að beita AGS fyrir sig í málinu. „Það er ríkisstjórnin sjálf sem stendur að því að hækka skatta hér, en enginn annar.“
Hún segir að Sjálfstæðisflokkurinn leggist gegn frekari skattahækkunum á heimilin í landinu. Efla verði almenna markaðinn þannig að hann geti skilað þeim tekjum sem ríkið þurfi á að halda. „Ekki bara einblína á að hækka skatta á almenning. Sú hagfræði gengur ekkert upp,“ segir hún.
Stefnuleysi ríkisstjórnarinnar sé rót vandans. „Það veit enginn hvert við erum að stefna. Ég held að það sé númer eitt, tvö og þrjú fyrir ríkisstjórnina að fara gera sér grein fyrir því að ákveða hvert hún ætli að fara með íslenskt hagkerfi.“