Fréttaskýring: Stefnulaus stjórnvöld í áfengismálum

Ríkisstjórnin hefur enn ekki mótað sér skýra stefnu í áfengismálum. Á meðan stefnuleysi ríkir gefst ekki tóm til að ráðast í heildarendurskoðun á áfengislöggjöfinni sem lykta á með frumvarpi til Alþingis. Á meðan verða áfengisauglýsingar í fjölmiðlum í mörgum tilvikum á gráu svæði, en sumum kolsvörtu og þar með ólöglegu.

Starfshópur fjármálaráðuneytis um heildarendurskoðun á áfengislöggjöfinni skilaði skýrslu snemma á árinu. Í henni kemur fram það sjónarmið hópsins, að brýnasta verkefni stjórnvalda í áfengismálum sé að móta heildstæða stefnu í áfengismálum með skýrum og raunhæfum markmiðum sem miða að því að draga úr skaðlegri neyslu áfengis.

Starfshópnum var gert að starfa áfram og til ráðgjafar við frumvarpsgerð en gert var ráð fyrir að frumvarp um ný áfengislög yrði lagt fram á Alþingi í haust. Guðmundur Jóhann Árnason, formaður starfshópsins, segir að það geti enn gengið eftir en frumvarpssmíðin strandi á stefnuleysi. „Það er í raun ekki hægt að setja upp frumvarp fyrr en áfengistefna stjórnvalda liggur fyrir,“ segir Guðmundur og bætir við að frumvarpið muni byggja á þeirri stefnu.

Erfiðlega hefur gengið að koma saman stefnumótandi samráðshóp fulltrúum heilbrigðisráðherra, fjármálaráðherra, dómsmálaráðherra, ÁTVR og Lýðheilsustöðvar. Vonir standa þó til að hópurinn komi saman í næsta mánuði. Takist það ætti vinnu hópsins að vera lokið jafnvel í byrjun september.

Rýmka löggjöf eða herða á?

Erfitt er að sjá hvernig að rýmka heimildir til áfengisauglýsinga geti rúmast innan stefnu Lýðheilsustöðvar í áfengismálum – eða Vinstri grænna. Minna má á frumvarp Ögmundar Jónassonar, þingmanns Vg, sem gengur út á að herða bann við áfengisauglýsingum, s.s. með því að taka fyrir auglýsingar á vörum með sömu merkjum eða einkennum áfengistegunda. Ögmundur talaði fyrir frumvarpinu í mars sl. og er það enn í meðförum allsherjarnefndar Alþingis.

Guðmundur Jóhann viðurkennir að verðandi áfengisstefna stjórnvalda geti komið til með að ganga gegn niðurstöðum starfshópsins. „Ég veit til að mynda,. að heilbrigðisráðherra hefur greint frá því að hann sé ekki fylgjandi þessu. Maður getur því gefið sér fyrirfram að þessi tillaga muni alla vega ekki fljúga inn í stefnuna.“ Svo því sé haldið til haga er Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra.

Víst er að áfengisauglýsingar fara fyrir brjóstið á mörgum og einnig að hægt sé að komast í kringum lögin. Hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins fengust þær upplýsingar að yfirgnæfandi fjöldi þeirra kæra sem berast vegna áfengisauglýsinga eigi ekki við rök að styðjast þar sem um léttöls auglýsingu eða löglega áfengisumfjöllun er að ræða.

Eitt hundrað kærur á RÚV

Árni segir að RÚV hafi í sumum tilvikum ekki haft fyrir því að fara kringum lögin því engar léttöls-merkingar mátti sjá.

Hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins fékkst staðfest að kærur á hendur RÚV geti numið einu hundraði. Einnig að einhver mál séu í rannsókn – ekki endilega tengd RÚV –sem ætla megi að fari í ákærumeðferð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert