Lax sem mældist 103 sentimetrar að lengd veiddist í hylnum Klingenberg í Laxá í Kjós á laugardag. Var laxinn spikfeitur hængur sem var áætlaður 22-24 pund að þyngd.
Fram kemur á vef Stangaveiðifélags Reykjavíkur, að laxinn tók einkrækju og stóð viðureignin yfir í á aðra klukkustund. Komst laxinn illa í háf en var að lokum landað ofan við veiðistaðinn. Var um að ræða annan lax veiðimannsins en Maríulaxinn hafði hann fengið daginn áður.
Tveir leiðsögumenn voru viðstaddir löndun og var um að ræða lax af gamla Kjósarstofninum, mjög sver og tilkomumikill.
Þá kemur fram, að í gærmorgun fékkst 22 punda lax á Knútsstaðatúni og var baráttan æsileg og stóð yfir í klukkustund. Í gærkveldi fékkst annar stórlax, 20 punda hængur úr Syðri- Hólma á Hólmavaðsveiðum. Hefur Hólmavaðssvæðið komið mjög sterkt inn siðustu daga, og laxar að veiðast jafnt á stíflunni og á Ósey.
Vefur Stangveiðifélags Reykjavíkur