Fjármálaráðuneytið segir, að íslensk stjórnvöld hafi þegar hafist handa um endurskoðun á tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs með það fyrir augum að auka tekjujöfnunareiginleika, hagvaxtaráhrif og skilvirkni kerfisins.
Með tekjuaukningu sé ætlunin að bæta stöðu opinberra fjármála í kjölfar efnahagshrunsins og fjármagna stefnu stjórnvalda að auka tekjujöfnun og styrkja hið félagslega öryggisnet og opinbera þjónustu á þeim sviðum þar sem hún teljist lakari en á hinum Norðurlöndunum.
Þetta kemur fram í umfjöllun ráðuneytisins um skýrslu, sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur gert um íslenska skattkerfið. Fjármálaráðuneytið segir, að í skýrslu sjóðsins sé fjallað um íslenska skattkerfið í samanburði við önnur Norðurlönd, Evrópulönd og aðildarríki OECD.
„Árangur í tekjujöfnun byggist á sterku velferðarkerfi, fjármagnað með skattkerfi með góða tekjuöflunareiginleika. Ef stighækkun skatta fer yfir tiltekin mörk dregur úr tekjuöflunargetunni vegna truflandi áhrifa á hagrænar ákvarðanir, hreyfanleika skattstofna og möguleika til undanskots frá sköttum. Þetta grefur undan möguleikum ríkisvaldsins til að jafna tekjur á skilvirkan hátt. Niðurstaðan er sú að meginframlag íslenska skattkerfisins til tekjujöfnunarstefnu stjórnvalda þarf að vera að afla nægra tekna á skilvirkan hátt, fremur en að draga úr ójöfnuði upp á eigin spýtur," segir fjármálaráðuneytið.