Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra segir að ríkisstjórnin sé ekki búin að taka neinar ákvarðanir um að hrinda hugmyndum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um skattahækkanir og breytingar á skattkerfinu í framkvæmd.
„Þetta eru auðvitað bara þeirra hugmyndir. Það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um að hrinda neinu af þessu í framkvæmd,“ sagði Gylfi að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.
Aðspurður um hugmyndir AGS segist Gylfi ekki vilja taka beina afstöðu til þeirra. „Það verður að skoða það í samhengi við aðrar aðgerðir til þess að loka fjárlagahallanum, bæði niðurskurð og aðrar hugsanlegar skattahækkanir. Þetta er eitt innlegg í þá umræðu en ég get ekki lagt mat á þetta í heild,“ segir ráðherra.
Spurður hvort það sé ekki óumflýjanlegt að ríkisstjórnin muni grípa til skattahækkana á næstunni segir Gylfi: „Það liggur fyrir að það þarf að fara með þrenn fjárlög sem verða erfið, þ.e.a.s fjárlögin fyrir næstu þrjú ár. Og í þeim verður bæði niðurskurður og tekjuöflun, það vitum við. En ég ætla svosem ekkert að segja nákvæmlega til um það hvernig útfærslan verður, enda hefur það ekki verið ákveðið.“