„Hringdu í mig á eftir, við erum að landa stórum laxi,“ sagði Andrés Eyjólfsson frá Síðumúla, leiðsögumaður við Þverá í Borgarfirði, þegar blaðamaður hringdi í hann í gærmorgun. Þegar við töluðum aftur saman skömmu síðar kom í ljós að þetta hafði verið 84 cm löng hrygna, mjög fallegur fiskur að sögn Andrésar.
Hann var síðustu daga að fylgja veiðimönnum með tvær stangir og þeir fengu fleiri stóra, 90, 85 og 84 cm langa, auk fjölda smálaxa. Veiðin hefur líka verið frábær í Þverá og á efri hluta árinnar, í Kjarrá, en í gær höfðu veiðst tæplega 1600 laxar.
„Það er fiskur allsstaðar, alveg fádæma góð veiði,“ sagði Andrés. „Í fyrra fórum við yfir 1000 laxa markið 27. júlí, nú vorum við 20 dögum fyrr að ná því.
Það er svo mikið af fiski að það liggur orðið lax í nær hverjum hyl og staðir sem venjulega gefa ekki fiska fyrr en seint í júlí eru orðnir virkir,“ sagði hann.
Og eru veiðimennirnir þá ekki lukkulegir?
„Jú, þú getur nærri. Það er erfitt að gleðja menn ef þetta gleður þá ekki!“
Veiðin í Þverá og Kjarrá var vægast sagt frábær í síðustu viku, eftir rigningarnar, en þá veiddust dag eftir dag yfir 100 laxar. Þá voru hollin í Þverá, þar sem veitt er á sjö stangir, með 105, 164 og 154 laxa.
„Það hefur verið flottur gangur í veiðinni hér,“ sagði Guðmundur Viðarsson matsveinn við Norðurá í gær og bætti við vatnsstaðan, mesta áhyggjuefni veiðimanna á Vesturlandi þetta sumarið, væri góð: „hvorki of mikið né of lítið.
Rigningin um daginn gaf okkur ekkert smá-flotta líflínu. Tvö holl þar á eftir tóku 600 laxa. Það er ekki algengt en svona getur veiðst hér á besta tíma þegar laxinn er að ganga,“ sagði Guðmundur. Hann bætti við að laxinn væri orðinn dreifður um alla á og inn á milli meira af stórum laxi en sést hefur í Norðurá í mörg ár. „Menn eru að fá upp undir 90 cm laxa. Norðurá er líka „blá“ af laxi þessa dagana,“ sagði Guðmundur.
Jóhann segir hlutfall stórlaxa í Miðfirðinum vera um 40 prósent það sem af er. „Það er ótrúlega gott hlutfall af tveggja ára laxi. Búið er að veiða 25 laxa sem eru yfir 90 cm langir.“
„Besti veiðidagurinn í sumar gaf 74 laxa, þar var feikigóður dagur,“ segir Rafn Valur Alfreðsson leigutaki Miðfjarðarár. „Þá var bæði sjatnandi vatn eftir rigningarnar og hörku-göngur í ána. Aðstæður voru erfiðar, mikill vindur, en frábær veiði. Þetta hefur verið alveg brilljant! Nú erum við svo farnir að sjá alvöru smálaxagöngur, sérstaklega í Vesturánni.“
Á vef SVFR segir ennfremur að enn fjölgi veiddum stórlöxum í Laxá í Aðaldal. Einn 22 punda veiddist um helgina á veiðistaðnum Knútsstaðatúni og annar 20 punda kom upp við Syðri-Hólma á Hólmavaðsveiðum.
„Laxinn tekur áfram og tekur vel, en það þýðir ekkert annað en að bjóða honum eitthvað rosalega smátt,“ sagði maðurinn.
Hvar sem laxveiðimenn koma saman þessa dagana er umræðuefnið laxafjöldinn í ánum, stóru laxarnir sem veiðast svo víða – og vatnið. „Hér er fínt vatn,“ sagði einn viðmælandi í veiðihúsi í gær, „vatnið er mátulegt,“ sagði annar. Andrés Eyjólfsson í Þverá sagði ána enn njóta rigningarinnar í síðustu viku, hún væri aðeins skoluð og það hjálpaði til, þá tæki laxinn betur.
Viðmælandi sem er á leið í veiði í Dölunum í lok mánaðarins var fyrir vestan um helgina, sá marga laxa í ánni en sá líka hvað vatnið í henni féll hratt. „Þetta gæti orðið erfitt ef ekki rignir aftur.“ Sama sagan og svo víða.