Falleinkunn fyrir ríkisstjórnina

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins, segir stjórnvöld hafa unnið að því …
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins, segir stjórnvöld hafa unnið að því að flækja skattkerfið. mbl.is/Árni Sæberg

Tillögur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) í skattamálum ganga, að mati Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins, allar út á það að vinda ofan af aðgerðum ríkisstjórnarinnar sl. ár. Við fyrstu sýn kunni að líta út fyrir að stjórnvöld séu að reyna að leita sér skjóls í hugmyndum AGS, en þegar betur sé að gáð þá sé það ríkisstjórnin sjálf sem á frumkvæðið að því að fá hugmyndir AGS um skattahækkanir fram.

„Það er athyglisvert að hugmyndir AGS gangi meira og minna allar út á það að vinda ofan af því sem ríkisstjórnin hefur verið að gera sl. ár,“ segir Bjarni. AGS leggi t.a.m. í tillögum sínum áherslu á breiða skattstofna og einfalt kerfi, en ríkisstjórnin hafi undanfarið ár unnið að því að flækja skattkerfið. „Það er líka augljóst að AGS vill allt til þess vinna að forðast skattahækkanir og það kemur berlega fram í skýrslunni að  til slíkra úrræða eigi ekki að grípa fyrr en í lengstu lög. Í þessu samhengi æpir aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum enn meira á mann.“

Sjálfstæðismenn hafi frá upphafi lagt áherslu á nauðsyn öflugra skattstofna og að efla þyrfti atvinnu og efnahagslíf þjóðarinnar.  „Á meðan hefur ríkisstjórnin skilað auðu í þessum efnum og kemur einungis með ítrekaðar hugmyndir um hærri skatta.“

Tillögur að skattahækkunum séu þó slæm tíðindi og komi á versta mögulega tíma fyrir fyrirtæki og heimilin í landinu.

Tillöguna um lægri mörk hátekjuskatts þarf hins vegar að skoða í heildarsamhengi að mati Bjarna, en sú tillaga gangi m.a. út á að stíga skref til baka og einfalda skattkerfið. „Með henni er AGS að segja að við eigum ekki nota skattkerfið til tekjujöfnunar, en þessi ríkisstjórn hefur einmitt lýst því yfir að hún ætli að nota skattkerfið til tekjujöfnunar. Þetta er því falleinkunn fyrir skattastefnu ríkisstjórnarinnar.“

Sjálfur kveðst Bjarni vita að AGS hafi mun meiri áhyggjur af hvernig Ísland ætli að vinna sig út úr kreppunni "Og það er á það atriði sem ríkisstjórnin ætti að beina sjónum sínum, ekki á nýja skatta."


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert