Lykt af frönskum kartöflum

Nemendur hella matarolíunni á bílinn undir eftirliti Pushpu Kathir.
Nemendur hella matarolíunni á bílinn undir eftirliti Pushpu Kathir.

Tilraun var nýlega gerð í rannsóknaraðstöðu Keilis á Keflavíkurflugvelli til að framleiða eldsneyti fyrir bíla úr matarolíu. Tilraunin tókst og að sögn viðstaddra var lyktin af útblæstrinum eins og af frönskum kartöflum.

Vísindamaður að nafni Puspha Kathir hefur að undanförnu dvalið hjá Keili á vegum bandarískra stjórvalda. Dvöl hennar hér fellur undir svokallaðan Science Fellow þar sem vísindafólki bandarísku er boðið að dvelja erlendis í því skyni að efla tengsl milli vísindafólks og koma á samstarfi. 

Í tilkynningu frá Keili segir, að Pushpa hafi skilað góðu verki því þegar séu komin af stað rannsóknarverkefni á vegum Keilis og bandarískra aðila.  Má þar nefna framleiðslu á metani úr lífrænum úrgangi, s.s.  hæsnaskít og  fiskúrgangi og einnig verkefni, er lýtur að því að vinna metan úr jarðgufunni í Svartsengi.  Það verkefni tengist m.a. NASA, bandarísku geimferðastofnuninni.

Fram kemur að tilraunin með matarolíuna hafi verið eitt síðasta verk Pushpu hérlendis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert