„Það var merkilegt að vakna í sól og blíðskaparveðri í grænni Þórsmörkinni og fara svo þarna upp eftir og sjá þessar furðulegu aðstæður; það rýkur úr hverjum hól og maður sá meira að segja inn í rauða kvikuna á einum stað,“ segir Snorri Guðjónsson, rafiðnfræðingur, en hann gekk ásamt fjölskyldu og vinum upp á Fimmvörðuháls á sunnudag.
Svæðið er þakið kolsvartri ösku úr gosinu í Eyjafjallajökli, meðal annars fellið sem til varð í gosinu á hálsinum í vor.
„Við gengum á hrauni sem er glænýtt og ofan á því var aska sem er úr öðru eldgosi, þetta var eiginlega alveg ótrúlegt,“ segir Snorri.
Að sögn Snorra rigndi mjög mikið þegar hann gekk á Fimmvörðuháls en regnvatnið gufaði upp um leið og það skall á jörðinni sem enn er heit vegna eldvirkninnar undir niðri. Mikil gufa steig því upp af jörðinni og skapaði magnað sjónarspil en algert logn var á hálsinum og hlýtt.
„Þegar maður kom aftur niður í grænan lund og sólskinið, var þetta í minningunni eins og draumur, þetta var svo absúrd að vera í þessu svarta umhverfi, rigningu og þoku og koma svo í þessa grænu veröld aftur,“ segir Snorri og segir að tilfinningin þegar niður af hálsinum var komið hafi verið mjög undarleg.
Enn hefur ekki verið lýst yfir goslokum í Eyjafjallajökli en hann hefur þó haft hægt um sig að undanförnu.