Ökumaður fékk hjartaáfall

mbl.is/Júlíus

Lögregla hefur lokið rannsókn á umferðarslysi er átti sér stað á Hafnarfjarðarvegi norðan Arnarnesbrúar að morgni 18. desember á síðasta ári þegar þrír karlmenn létu lífið. Niðurstaðan er að ökumaður annars bílsins hafi fengið hjartaáfall og því misst stjórn á bíl sínum.

Slysið varð með þeim hætti að bíl var ekið til suðurs Hafnarfjarðarveg og yfir á akbraut fyrir umferð úr gagnstæðri átt þar sem árekstur varð.  
Ökumaður var einn í bílnum, sem ekið var suður Hafnarfjarðarveg en tveir menn í hinum. Þeir létust allir í slysinu.

Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir, að rannsókn lögreglu hafi miðað að því meðal annars að áætla hraða ökutækjanna fyrir slysið og kanna öryggisbúnað þeirra. Þá hafi mögulegra orsaka leitað í líkamlegu ástandi ökumanna.

Engar vísbendingar séu um hraðakstur í aðdraganda slyssins og það sé meðal annars byggt á framburði vitna og eins á mælingum hraðagreina á akbraut til suðurs Hafnarfjarðarveg, við Kópavogslæk skammt frá slysstað.

Í samræmi við hraðaútreikninga sem gerðir voru eftir óhappið jók bíllinn, sem ekið var suður Hafnarfjarðarveg hraðann, eftir að hafa farið yfir hraðagreini á Hafnarfjarðarvegi, snérist á veginum, fór yfir autt svæði milli akbrauta til suðurs og norðurs Hafnarfjarðarveg og lenti á á bíl sem ekið var úr gagnstæðri átt.

Í krufningsskýrslu kom fram að ökumaður bifreiðar, sem ekið var suður Hafnarfjarðarveg var meðvitundarlaus þegar áreksturinn varð. Hann hafði fengið hjartaáfall og var hann úrskurðaður látinn við komu bráðaliða á slysstað.

Orsök slyssins er því rakin til líkamlegs ástands ökumanns bifreiðar sem ekið var suður Hafnarfjarðarveg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert