Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) kynnti í gær tillögur að breytingum á skattkerfi Íslands. Meðal annars lagði sjóðurinn til að virðisaukaskattur á matvæli hækki úr 7% í 14% og að álögur á bækur, tímarit og geisladiska hækki einnig, úr 7% í 25,5%.
Hlutfallsleg rýrnun ráðstöfunartekna heimilanna vegna breyttrar álagningar virðisaukaskatts yrði 2%. Verðlagsvísitala myndi jafnframt hækka um 1% í kjölfarið, sem hefði í för með sér samsvarandi hækkun höfuðstóls verðtryggðra íbúðalána.
Sjóðurinn leggur til breytingar á tekjuskattskerfinu, sem hefðu í för með sér töluverðar skattahækkanir á þá sem hafa tekjur yfir 375 þúsund krónum á mánuði. Tekjuskattsprósenta frá og með þeirri upphæð yrði 47,2%, samkvæmt tillögunum.
Tilgangurinn með tillögum AGS er að einfalda kerfið, auka tekjumöguleika ríkissjóðs og stuðla að jafnari tekjudreifingu. Tillögurnar eru gerðar að beiðni fjármálaráðherra. Auk þeirra breytinga sem þegar hafa verið nefndar leggur AGS til að hækkun eldsneytisskatta verði skoðuð og eignaskattar teknir upp, svo fátt eitt sé nefnt. Áhrif þessara skattkerfisbreytinga á afkomu ríkissjóðs yrðu tekjuaukning upp á tæp tvö prósent af vergri landsframleiðslu, eða rétt innan við 30 milljarða króna.
Samkvæmt útreikningum Samtaka atvinnulífsins myndu samanlögð áhrif fyrirhugaðra skattkerfisbreytinga rýra ráðstöfunartekjur heimilanna um 3,5%.