Húsfélag í fjölbýlishúsi á Akranesi hefur skorað á íbúa hússins að heimila Svanhildi Önnu Sveinsdóttur að hafa leiðsöguhund í íbúð sinni. Svanhildur er heyrnar- og sjónskert.
Jón Pálmi Pálsson, bæjarstjóri á Akranesi, tók málið í eigin hendur og hélt fund með stjórn húsfélagsins í gær og beindi þeim tilmælum til húsfélagsins að það beitti sér fyrir því að Svanhildi yrði leyft að halda hundinn.
Húsfélagið fundaði í kjölfarið og skoraði á íbúa að leyfa hundahaldið. Íbúar hafa þann rétt samkvæmt lögum að neita því að hundar séu haldnir í húsum.
Fyrir þremur árum fékk Svanhildur leyfi nágranna sinna til að hafa hundinn hjá sér. Það leyfi rennur út 1. nóvember næstkomandi og hafa nágrannarnir ekki viljað endurnýja það.
„Mér finnst það ansi langt gengið að leyfa henni ekki að hafa hundinn og hef enga trú á öðru en að þetta mál leysist með farsælum hætti,“ segir Jón Pálmi.
Að sögn Jóns Pálma er hundurinn jafnframt afar rólegur og gæfur. „Það er örugglega minna ónæði af þessum hundi í húsinu en venjulegum manni.“ Labradorhundurinn hefur fylgt Svanhildi í þrjú ár og ber nafnið Exó.
Hann segir jafnframt að málinu hafi fylgt mikið ónæði fyrir íbúa hússins. „Íbúar hér hafa fengið símtöl og tölvupósta, jafnvel hótanir, í kjölfarið og það er afar leitt.“