Sýking í síld lítið í rénun

Starfsmenn Hafrannsóknastofnunar skoða síld um borð í Bjarna Sæmundssyni.
Starfsmenn Hafrannsóknastofnunar skoða síld um borð í Bjarna Sæmundssyni.

Niðurstöður leiðangurs Hafrannsóknastofnunar til að rannsaka sumargotssíldina hér við land, benda ekki til þess að sýking, sem herjað hefur á síldarstofninn, sé mikið í rénum en þó hefur hlutfall sýktrar síldar lækkað ef miðað er við niðurstöður í sambærilegum leiðangri fyrir ári.

Hafrannsóknastofnun mun ekki veita aflaráðgjöf fyrir næstu vertíð fyrr en að afloknum leiðangri á vetursetustöðvar stofnsins í haust og gerð endanlegs stofnmats sem byggir þar á. Áfram verður fylgst náið með framvindu sýkingarinnar.

Leiðangurinn nú var farinn á rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni á þekktar hrygningarslóðir stofnsins frá Látrabjargi, suður með landinu og austur að Hvalbak, en megin hrygningin á sér stað um miðjan júlí ár hvert.  Sýkingartíðnin mældist 28% en síðastliðinn vetur var hlutfallið um 43%.

Sýkingarhlutfallið var rúm 30% á vesturhluta svæðisins nú en um og undir 20% á svæðunum austan við Kötlutanga. Um helmingur sýktu fiskanna var með sýkingu á fyrsta stigi, en það er svipað hlutfall og sást sumarið 2009. Hafrannsóknastofnun segir, að ekkert  bendi til annars en að öll sýkt síld drepist.

2007 árgangur í meðallagi

Dreifing síldarinnar nú var nokkuð sambærileg við leiðangurinn fyrir ári. Mest mældist af síld í Faxaflóa og við Garðskaga en einnig nokkurt magn á Selvogsbanka og austur af Ingólfshöfða. Aðallega var þetta óhrygnd kynþroska síld, en út af vestanverðu Suðurlandi var í bland við hrygningarsíldina töluvert af ókynþroska síld af árgangi 2007.

Hafrannsóknastofnun segir, að þetta hafi verið fyrsta eiginlega bergmálsmælingin á þeim árgangi frá því að hann var fyrst mældur sem ungviði í janúar 2009 og magnið þá benti til að hann gæti orðið nálægt meðalstórum árgangi, en hann var þá nánast allur ósýktur inni á Skjálfanda. Þetta sé því frekari vísbending um að 2007 árgangurinn sé nálægt meðalstærð, en það muni væntanlega skýrast betur í haust.

Um 20% sýking var metin í þessum árgangi sem ekki kemur inn í veiðistofninn að neinu marki fyrr en haustið 2011.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka