Varar við heljarstökkum í skattheimtu og niðurskurði

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson. Kristinn Ingvarsson

„Maður með 3-400 þúsund krónur á mánuði er ekki hátekjumaður í mínum huga. Við skulum ekki einu sinni byrja að ræða slíkt fyrr en við erum komin yfir 600 þúsund krónur á mánuði.“  segir Ögmundur Jónasson, þingmaður VG.

Í nýjum tillögum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um breytingar á skattkerfinu hér á landi er meðal annars lagt til að hátekjuskattur verði lagður á 375 þúsund krónur og yfir í mánaðarlaun. Hátekjuskattur er í dag miðaður við 650 þúsund krónur á mánuði.

Ögmundur hvetur til varfærni og yfirvegunar og segir að skoða eigi allar hugmyndir um skattahækkanir með tilliti til þanþols heimila og fyrirtækja. „Ég vara við öllum heljarstökkum í skattlagningu og niðurskurði í velferðarmálum.“ Ögmundur segist jafnframt hafa efasemdir um að ganga eigi lengra í skattheimtu gagnvart meðal- og lágtekjufólki í samfélaginu. „Það er ekki endalaust hægt að skattleggja einstaklinga og fyrirtæki, það þarf að hyggja að þanþolinu.“

Ögmundur telur að leggja eigi áherslu á fjármagnstekjuskatt og jafnframt skatt á auðlindanýtingu og stóriðju. „Það er kominn tími til að stóriðjan leggi hressilega til þjóðarbúsins.“ Þá vill hann ennfremur flýta skattlagningu á séreignarsparnað lífeyrissjóða. „Við vitum að sá skattur mun koma til sögunnar og spurningin er hvort sé ekki sé hyggilegt að gera það í þeim aðstæðum sem við búum við í dag.“

Hugmyndirnar eru fíflagangur

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, segir tillögur AGS um að lækka hátekjuskatt niður í 375 þúsund krónur á mánuði vera „fíflagang“. 

Í tillögunum er ennfremur lagt til að hækka virðisaukaskatt umtalsvert; úr 7% í 25,5% á bækur, tímarit og geisladiska og úr 7% í 14% á matvöru. 

„Þetta er þessi klassíska nýfrjálshyggjuleið að skattleggja neyslu almennings. Þetta bitnar á þeim sem þurfa að eyða meiru í mat og nauðsynjar. Þetta eru tillögur AGS um nýfrjálshyggjuskattlagningu og ómerkilegar sem slíkar,“ segir Þór.

Þór Saari.
Þór Saari. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert