Stefan Füle, sem fer með stækkunarmál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, lýsti því yfir í dag að Ísland eigi nú rétt á fjárstuðningi frá sambandinu til að búa sig undir aðild. Segir Füle, að þessi ákvörðun endurspeglaði vilja Evrópusambandsins til að styðja aðildarferli Íslands.
Fram kemur í yfirlýsingu á vef Evrópusambandsins, að fjárstuðningnum sé einkum ætlað að styrkja íslenskar stofnanir og löggjafarvaldið til að laga löggjöfina að lögum Evrópusambandsins.
„Þessi ákvörðun undirstrikar vilja okkar til að styðja aðildarferil Íslands, Við hvetjum landið til að gera það sem það getur til að tryggja árangursríka aðild að Evrópusambandinu," segir Füle í yfirlýsingunni.
Forsetar Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB skrifuðu um miðjan júní undir breytingu á reglugerð, sem fól í sér að Ísland ætti rétt á fjárstuðningi vegna aðildarferlisins. Sú breyting tók gildi í dag.