Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitins, segir að Malcolm Walker, forstjóri bresku verslanakeðjunnar Iceland, hafi staðfest við sig í síma að félagið hafi átt 202 milljónir punda í reiðufé á bankareikningum haustið 2008.
Steinunn segist eiga von á því að fá þetta staðfest bréfleiðis. „Hann fullyrti við mig í síma að þessar innistæður tilheyri Iceland Foods,“ segir Steinunn í samtali við mbl.is. Þá segir hún að Walker hafi sagst ætla að senda sér staðfestingu á því bréfleiðis, en sú staðfesting sé hins vegar ekki komin.
„Það sem ég vil leggja áherslu á er að við höfum aldrei sagt neitt annað heldur en það að þessi tölvupóstur [sem Jón Ásgeir Jóhannesson sendi Lárusi Welding, fyrrverandi forstjóra Glitnis, fáeinum dögum fyrir hrun bankans], sem hefur verið birtur, var sendur til bankans með yfirskriftinni „For your eyes only“, og það kom ekkert fram í honum hver ætti þessar innistæður. Við höfum aldrei sagt að einhver ætti þær frekar en annar. Við höfum bara sagt að við höfum ekki upplýsingar um það,“ segir Steinunn í samtali við mbl.is.
Hún bendir á að þessi póstur hafi verið sendur á viðkvæmum tímapunkti í rekstri bankans og því hafi verið eðlilegt að spyrja hver ætti þessar innistæður.
„Þetta er í fyrsta skipti sem við fáum skýringar á því hverjum þetta tilheyrir.“
Fram kom í vitnisburði Steinunnar fyrir rétti vegna skaðabótamáls slitastjórnar Glitnis á hendur Jóni Ásgeiri og fleirum, að rannsakendur fyrirtækisins Kroll hefðu grafið upp tölvupóst frá Jóni Ásgeiri til Lárusar Welding í þrotabúi Glitnis. Var þar um að ræða myndaskjal sem sýndi innistæður í fimm breskum bönkum fyrir samtals 202 milljónir punda. Yfirskrift tölvupóstsins var „For your eyes only“ eða: „Aðeins fyrir þig.“