Nían nægði ekki

Breytt innritunarferli í framhaldsskóla landsins hefur vakið athygli upp á síðkastið. Margir hafa gagnrýnt ferlið opinberlega, þar á meðal skólameistarar í framhaldsskólum. Lárus Guðmundsson, sem útskrifaðist úr grunnskóla í vor, hefur nú bæst í hóp hinna óánægðu.

Hann segir að nýja innritunarferlið hafi skert möguleika sína á því að komast inn í sinn draumaskóla, Menntaskólann í Reykjavík, þar sem hann er búsettur í Breiðholti. Lárus útskrifaðist úr Breiðholtsskóla með 9,0 í meðaleinkunn og var í spurningaliði skólans.

Nýja innritunarferlið felur í sér að 45% nýnema sem framhaldsskólar innrita í haust, þurfa að koma úr nágrenni skólans.

Hersir Aron Ólafsson lauk nýverið sínu fyrsta ári í Verzlunarskóla Íslands. Í grein sinni í Morgunblaðinu í gær, sagði hann að innritunarferlið væri ósanngjarnt og minnkaði jafnrétti til náms. Hersir hefur unnið með tilvonandi framhaldsskólanemum í sumar, en hann er leiðbeinandi hjá Jafningjafræðslunni. Hann kveðst hafa orðið var við mikla óánægju með fyrirkomulagið meðal ungmennanna.

Bæði Lárus og Hersir segja að það vanti samræmda mælistiku á námsárangur grunnskólanema, en samræmd próf voru afnumin fyrir tveimur árum síðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert