Tafir á áætlun Herjólfs vegna endurbóta

Vestmannaferjan Herjólfur.
Vestmannaferjan Herjólfur.

Nokkrar tafir hafa orðið á brottför Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs á morgnana sem rekja má til framkvæmda um borð í ferjunni. Unnið hefur verið að því að skipta um hluti í olíuverki skipsins, og hefur þetta verið gert á nóttunni svo skipið geti siglt á daginn.

Guðmundur Pedersen, rekstarstjóri Herjólfs, segir þetta tengjast því að ferjan muni brátt fara sigla á milli Landeyjahafnar og Eyja, eða nánar tiltekið 21. júlí nk. Skipið hafi fram til þessa brennt svartolíu en öryggisins vegna hafi verið ákveðið að nota þynnri og betri olíu þegar siglt verði inn í nýju höfnina. Menn hafi því ákveðið að vinna á nóttunni í stað þess að stöðva ferjusiglingar í tvo til þrjá daga.

„Það kemur alltaf eitthvað upp þegar það er verið að gera svona. Það hefur komið fyrir tvisvar sinnum að það hafi þurft að skipta um allt innvols í dælum. Þær eru að ég held 24, sem eru að dæla eldsneyti,“ segir Guðmundur og bætir við að framkvæmdum muni vonandi ljúka í dag.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert