TF-SIF vinnur fyrir BP

Flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF hélt í morgun til Houma í Louisiana þar sem flugvélin mun næstu fjórar vikur sinna mengunareftirliti á Mexíkóflóa fyrir breska olíufyrirtækið BP.

Bandaríska strandgæslan hefur yfirumsjón með framkvæmd verkefnisins. TF-SIF leysir af flugvél samgöngustofnunar Kanada við verkið. Sú flugvél er sömu tegundar og TF-SIF og þær eru báðar útbúnar öflugum hliðarradar „Side-looking airborne radar“ (SLAR) sem er sérhannaður fyrir mengunareftirlit.

Verkefni TF-SIF felst í að kortleggja olíumengun á svæðinu suður af New Orleans og verður áhersla lögð á að meta hvar olían er í hreinsanlegu magni.

Öll gögn frá TF-SIF verða send sameiginlegri vettvangsstjórnstöð BP og bandarísku strandgæslunni þar sem fulltrúi Landhelgisgæslunnar verður staðsettur. Daglega eru haldnir fundir þar sem farið er yfir stöðuna og næstu skref ákveðin. Í stjórnstöðinni starfa  á annað hundrað manns frá ýmsum löndum og stofnunum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert