Þung skref að þiggja aðstoð

Mikið hefur verið að gera hjá kaffistofu Samhjálpar í sumar og eftir að kom til sumarlokana hjá Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálpinni hafa veitingastaðurinn 19. hæðin og Samverjinn samfélagshjálp ákveðið að bjóða upp á ókeypis máltíðir. Dræm mæting var í súpu og brauð á 19. hæðinni í gær.

Aðstandendur Samverjans eru þó bjartsýnir, en þeir ætla frá og með deginum í dag að bjóða upp á léttar máltíðir í Stýrimannaskólanum frá kl. 11.30-14 alla virka daga út júlímánuð.

Ragnheiður Guðfinna Guðnadóttir, verkefnastjóri Samverjans, segir fólk þegar hafa verið farið að tínast að í gærmorgun. „Þetta á að vera lítið, kærleiksríkt samfélag fyrir þá sem þurfa á aðstoð að halda. Við viljum láta fólk vita að það er ekkert að því að þiggja hjálp.“ Mikill áhugi sé á að taka þátt í verkefninu, fjölmargar matargjafir hafi þegar borist og margir kokkar boðið fram sína starfskrafta. Enn sé þó þörf á sjálfboðaliðum í framreiðslu og þrif.

Vilhjálmur Svan Jóhannsson, umsjónarmaður kaffistofu Samhjálpar, segir fallega hugsun ráða ferðinni hjá þeim sem nú rétta fram hjálparhönd. „Hjá okkur er ekkert lát á gestafjöldanum, en við höfum þó vel undan,“ segir hann. Sama fólkið leiti aftur og aftur til Samhjálpar. „Það er eins og hópurinn sem dettur út við sumarlokanir hjálparstofnana sé annar en sá hópur sem borðar á staðnum.“

Til Samhjálpar séu þó allir velkomnir, en skrefin séu oft þung og lítil hefð fyrir slíkum eldhúsum hér á landi. „Það var lengi óreglustimpill á matargjöfum eins og þessum, enda þurftu fæstir á slíkri hjálp að halda,“ segir Vilhjálmur. Aðstæður í dag séu hins vegar gjörbreyttar. Ótti margra við að fá á sig stimpil sé samt yfirsterkari lönguninni í mat. „Þetta er lítið samfélag og þetta eru þung skref fyrir marga.“ annaei@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert