Þjófnaður á tjaldvögnum og fellihýsum hefur aukist mikið að undanförnu. Lögregla vill brýna fyrir fólki að vera á varðbergi og nota keðjur og lása óspart til að verja vagnana frá þjófum.
Að sögn lögreglu hefur þjófnaður á slíkum tækjum alltaf tíðkast hér en aldrei í sama mæli og nú og virðast þjófarnir svífast einskis við verknaði sína. Lögregla hefur einnig litlar upplýsingar um hvað verður um vagnana og telur líklegt að þeir séu fluttir úr landi í gámum.
Tjaldvagnar og fellihýsi eru dýr og lögregla veit um dæmi þess að tjaldvagn, sem fjölskylda ein hafði keypt fyrir 2 milljónir og átt í tvær vikur, hafi verið tekinn ófrjálsri hendi og aldrei sést aftur.