Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var með talsverðan viðbúnað við Hverfisgötu þar sem hópur fólks mótmælti utan við skrifstofu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í gær skvettu tveir úr hópi mótmælenda málningu á húsið og var annar þeirra handtekinn.
Að sögn blaðamanns mbl.is eru nokkru færri utan við skrifstofu AGS í dag en verið hefur undanfarna daga. Fólkið framleiddi talsverðan hávaða en allt hefur farið friðsamlega fram.
Eftir nokkurn tíma færði hópurinn sig um set og kom sér fyrir á túninu framan við Stjórnarráðið þar sem mótmælunum var haldið áfram.